Starf í þjónustu eldri borgara er skemmtilegt starf

UMRÆÐA um málefni eldri borgara hefur haft tilhneigingu til að vera neikvæð þar sem hún hefur einkennst af umræðu um biðlista, skort á hjúkrunarrýmum og manneklu. Sjaldan eða aldrei kemst í umræðuna hversu skemmtilegt og gefandi starf með eldri borgurum er. Skapa þarf nýja og jákvæða sýn á málefni eldri borgara þar sem áhersla er lögð á nýjar leiðir, spennandi verkefni til að takast á við og ekki síst á framsæknar hugmyndir eldri borgara til að bæta og þróa framtíðarþjónustu við þá.

Hin neikvæða umræða um öldrunarþjónustu á Íslandi er síst til þess fallin að bæta þjónustu við eldri borgara. Starf í þágu aldraðra fær á sig neikvæðan stimpil og þar af leiðandi er ólíklegt að gott starfsfólk laðist til starfa. Það leikur þó enginn vafi á því að í samfélaginu eru fjölmargir sem vilja, langar og geta unnið í þágu aldraðra, en hafa ekki fundið starfskröftum sínum réttan farveg í núverandi kerfi. Um er að ræða fólk sem ber mikinn metnað í brjósti fyrir starfi með eldri borgurum; fólk sem vill vinna með þeim að auknum lífsgæðum. Fólk, sem hefur til að bera mikla færni, er jákvætt og hvetjandi, kann að hlusta og ber virðingu fyrir einstaklingnum og hans lífsgildum.

Skoðum nokkrar staðreyndir. Til dæmis þá staðreynd að árið 2005 voru 8,6% þjóðarinnar yfir 70 ára og áætlanir Mannfjöldaspár Hagstofu Íslands gera ráð fyrir að árið 2035 verði hlutfallið komið í 14,7%. Í dag eru um 3.000 einstaklingar með greinda heilabilun. Talið er að árið 2035 verði þeir um 5.500. Ríkisstjórnin hefur tjáð vilja sinn til að fjölga hjúkrunarrýmum, öryggisíbúðum og þjónustuíbúðum. Mannekla hefur verið viðvarandi í þjónustu við aldraða undanfarin ár en ljóst er að þörfin verður enn meiri á næstu áratugum. Gera þarf átak í að endurskipuleggja þjónustu við eldri borgara og laða til starfa gott fólk. En hvaða leiðir eru bestar í þeim efnum?

Sameining allrar þjónustu við eldri borgara þ.m.t. heimahjúkrun og félagsleg heimaþjónusta.

Í dag er heimahjúkrun í flestum tilvikum á vegum ríkisins en félagsleg heimaþjónusta á vegum sveitarfélaga. Af þeim sökum koma mun fleiri aðilar að þjónustu við einstakling en ef þessir þjónustuþættir væru á einni hendi. Að sama skapi eru störf í heimahjúkrun og heimaþjónustu ekki jafn fjölbreytt og þau gætu verið ef um væri að ræða samþætta þjónustu við hvern og einn. Þá ætti starfsmaður þess kost að dvelja lengur við þjónustu við hvern og einn og hann myndi njóta persónulegri tengsla við viðskiptavininn. Þá myndi starfmaðurinn frekar upplifa að hann væri að veita góða þjónustu sem gerir starfið meira gefandi. Notandi myndi upplifa sterkari tengsl við sinn þjónustuaðila sem eflir tilfinningu um öryggi og traust.

Með samþættingu heimahjúkrunar og heimaþjónustu myndi skilvirkni þjónustunnar aukast og samlegðaráhrif skapast. Svigrúm myndi skapast til þess að hækka laun þeirra sem eru í þessum störfum. Hærri laun auka samkeppni um starfið, það verður eftirsóknarverðara, hvetur til metnaðar í starfi og eykur starfsánægju.

Sjálfsákvörðunarréttur eldri borgara á þjónustuvalkostum heima fyrir, þjónustuaðila og þjónustumagni.

Á Norðurlöndunum hefur verið lögð áhersla á valfrelsi einstaklinga um heimaþjónustu en þar er heimahjúkrun og félagsleg heimaþjónusta á ábyrgð sveitarfélaga. Það hefur sýnt sig að notendaval um þjónustugæði, þjónustuaðila og þjónustumagn leiðir til aukins sjálfræðis og sjálfstæðis eldri borgara. Þar sem áherslan er á valfrelsi hins aldraða er hvatt til þess að fleiri aðilar en sveitarfélög bjóði upp á heimaþjónustu til þess að auka samkeppni um gæði og þjónustu. Notandinn stýrir hvernig þau úrræði sem hann fær eru veitt og af hverjum. Með slíku valfrelsi eldri borgara er hvatt til nýrrar hugsunar og sjálfstæðis notenda en samhliða skapast hvati til þróunar margbreytilegra þjónustuvalkosta og samkeppni með gæðum.

Með notendavali er samkeppni líklegri til að skapast um besta fólkið en ákjósanlegt væri ef hún myndi leiða til hærri launa fyrir þá aðila sem standa sig best. Þeir sem veita gæðaþjónustu yrðu eftirsóttir og nytu meiri virðingar sem eykur starfsánægju. Valfrelsið breytir jafnvæginu á milli þjónustuveitanda og þjónustuþega. Notandi þjónustunnar verður viðskiptavinur sem eykur kröfur hans til þjónustuveitndans. Starfsmaðurinn er líklegri til að fá endurgjöf frá viðskiptavininum, hvort tveggja jákvæða og neikvæða, vegna opnari samskipta sem er mikilvægur hvati til þess að standa sig vel í starfi.

Starf með eldri borgurm er skemmtilegt og gefandi starf, en með opnum hug má finna ýmsar leiðir til þess að gera það að enn ákjósanlegri kosti. Nauðsynlegt er að taka núverandi fyrirkomulag til gagngerrar endurskoðunar svo takast megi að efla starf í þjónustu eldri borgara. Frjálst notendaval um þjónustugæði, þjónustuaðila og þjónustumagn heimaþjónustu er raunhæfur valkostur sem taka ætti til skoðunar af fullri alvöru.

Höfundur er hjúkrunarfræðingur.


Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband